Um Upplit: Stjórn / Félagar / Lög / Samningur við VSSV / Gerast félagi / Hafa samband / Um vefinn / Merki / Kynningarmál

Samningur við VSSV

Upplit, menningarklasi uppsveita Árnessýslu, fékk síðla árs 2009 styrk frá Vaxtarsamningi Suðurlands til þriggja ára verkefnis; sem hófst formlega í ársbyrjun 2010 og lýkur í ágúst 2012. Í samningnum felst m.a. að Upplit stendur fyrir mánaðarlegum viðburðum allan starfstímann, öflugri kynningu á viðburðunum, skráningu í gagnagrunn hér á vefnum og menningarrannsóknum sem falla að markmiðum klasans.

Framlög og mótframlög

Framlag Vaxtarsamnings Suðurlands er 2,9 milljónir króna og skuldbinda félagsmenn sig til að leggja fram andvirði annarra 2,9 milljóna. Framlag hvers einstaklings, félags eða fyrirtækis er áætlað að verðmæti 120.000 kr. í formi vinnuframlags, sérfræðiráðgjafar eða aðstöðu. Framlag menningar- og samkomustaða er áætlað að verðmæti 100.000 kr. á hvern stað, miðað við að leggja hús undir viðburðakvöld, aðstöðu og vinnu tvisvar sinnum á starfstímanum.

Ný tækifæri í menningartengdri ferðaþjónustu

Ef vel tekst til mun verkefnið skapa störf í uppsveitunum, efla og auðga þá ferðaþjónustu sem fyrir er á svæðinu og skapa ný tækifæri til uppbyggingar í menningartengdri ferðaþjónustu og rannsóknum. Þannig mun starfsemi Upplits beint og óbeint efla samkeppnishæfni svæðisins og efla hagvöxt. Ennfremur standa vonir til þess að verkefnið efli vitund heimamanna í uppsveitunum um eigin menningu og sögu – og efli jafnframt svæðisbundna sérþekkingu, sem síðan getur styrkt búsetu á svæðinu. Samvinna þeirra ólíku aðila sem standa að verkefninu skapar aukin tækifæri fyrir hlutaðeigandi og verður uppspretta fyrir ný verkefni og rannsóknir. Ólík sjónarhorn, menntun og reynsla einstaklinganna getur ennfremur auðgað verkefni hverra annarra. Verkefnið mun í senn vekja jákvæðan áhuga heimamanna á eigin menningararfi og athygli gesta og þannig laða þá inn á svæðið. Þannig styrkist ímynd svæðisins, jafnt út á við sem inn á við. Á síðari stigum er fyrirhugað að mynda tengslanet út fyrir klasann, með öðrum aðilum sem starfa á svipuðum vettvangi.

Sterkari saman

Mikilvægi klasasamstarfsins fyrir félaga Upplits má lýsa með kjörorðinu „Saman erum við sterkari“. Margir hverjir hafa félagsmenn unnið hver í sínu horni að menningarverkefnum, oftast meðfram öðrum störfum og tími jafnt sem fjármagn því af skornum skammti. Hægt verður að nýta sérfræðiþekkingu og reynslu þeirra einstaklinga sem að einstökum verkefnum standa og með því gefa verkefnunum nýja vídd og auðga hvert og eitt þeirra. Klasasamstarf opnar ýmsa möguleika sem einstaklingarnir hafa ekki einir og sér, auk þess sem samstarfið sparar vinnu og fé og stuðlar að aukinni fagmennsku og skilvirkni. Lögð er sérstök áhersla á að kynna og efla menningar- og samkomustaði í uppsveitunum og laða þangað fleiri gesti með því að bjóða upp á áhugaverða menningardagskrá. Það styrkir ekki einungis menningarstaðina hvern fyrir sig, heldur einnig sem heild, og tengir þá saman í net menningarstaða uppsveitanna, sem hagnast á því að tengja sig við menningarmiðlun á svæðinu, fjárhagslega jafnt sem ímyndarlega.

Vaxtarsamningur Suðurlands er rekinn af Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands.