Tilbaka í Fréttir

Aðventukveðja frá Uppliti

Hópur barna og fullorðinna ásamt jólasveini að dansa í kringum jólatré.

Glatt á hjalla á jólaskemmtun á Flúðum 1964.

Þar sem Upplit hefur staðið fyrir mun fleiri viðburðum á fyrsta starfsári sínu en upphaflega stóð til, eða alls 17 viðburðum á tímabilinu frá janúar til nóvember, þykir stjórninni rétt að staldra aðeins við, safna kröftum og njóta þeirra viðburða annarra sem nú eru í boði hvert sem litið er. Það verður með öðrum orðum ekki skipulagður Upplitsviðburður í desember, en félagar hvattir til að njóta þeirra fjölmörgu menningarviðburða sem í boði eru nú í aðdraganda jólanna út um allar sveitir.

Síðan komum við sterk inn aftur í janúar með aðalfund og málþing um menningarstefnu í uppsveitunum – nánari upplýsingar um það þegar nær dregur. Snemma á nýja árinu eru svo á döfinni erindi um skrímsli í uppsveitunum, ljósmyndasýning um andlit í landslaginu, erindi um virkjanamál og náttúruvernd og ýmislegt fleira spennandi.

Meðfylgjandi mynd tók Sigurgeir Sigmundsson á jólatrésskemmtun á Flúðum 1964. Sennilega nýtur jólasveinninn aðstoðar Óskars Jónssonar alþingismanns frá Vík. Óskar kom allnokkur skipti fram í hlutverki gleðigjafa á jólatrésskemmtunum Hrunamanna. Á myndinni má greina Guðmund „Gúnda“ Pálsson til vinstri, Sigurð Jónsson í Ásgerði hægra megin við jólasveininn og Gunnlaug og Margréti á Laugalandi fyrir framan jólasveininn. Þar fyrir framan er Svava Pálsdóttir á Hrafnkelsstöðum leiðandi Aðalstein son sinn. Næstur þeim er Torfi Harðarson frá Reykjadal.