Tilbaka í Fyrri Upplitsviðburðir

Gengið á Gullkistuna laugardagskvöldið 20. júní kl. 20.00

GULLKISTAN - mynd (00000002)GULLKISTAN dvalarstaður fyrir skapandi fólk og UPPLIT menningarklasi uppsveita Árnessýslu efna til sumarsólstöðugöngu á hnúkinn Gullkistu efst á Miðdalsfjalli í Laugardal laugardagskvöldið 20. júní. Ráðgert er að leggja af stað frá bænum Miðdal klukkan 20.00 og tekur gangan tvo til þrjá tíma. Leiðangursstjóri er Pálmi Hilmarsson húsbóndi í Menntaskólanum að Laugarvatni. Öðrum þræði er tilefni göngunnar að minnast þess að 20 ár eru liðin frá Gullkistuhátíðinni sem haldin var á Laugarvatni sumarið 1995 en þá var þessi sama leið gengin undir trumbuslætti. Þjóðsagan segir að gull sé falið í kistunni en til þess að hún opnist ferðalöngum þarf að uppfylla ströng skilyrði. Hvort það takist í þessari ferð skal ekkert sagt um en á það minnt að ótrúlegustu óskir geta ræst í íslenskri náttúru undir miðnætursól. Að lokinni göngu geta þreyttir kroppar komið við í Fontana á Laugarvatni og hlýjað sér í gufu og potti. Þar verður opið til miðnættis. Gert er ráð fyrir að hver og einn komi með nesti og drykki til fararinnar. Allir eru hjartanlega velkomnir.