Tilbaka í Fréttir

Ættfræðinnar ýmsu hliðar – Gamla Borg í Grímsnesi laugardaginn 15. mars kl. 16

Laugardaginn 15. mars heldur Guðfinna Ragnarsdóttir erindi sem hún kallar Ættfræðinnar ýmsu hliðar.
Hún fjallar um munnlega og skriflega geymd, sögur og sagnir, erfðir af ýmsu tagi, gáfur og gjörvileik, muni og myndir, en ekki síst um gildi ættfræðinnar og ættartengslanna og þá ábyrgð sem á öllum hvílir að varðveita og koma ættarfróðleiknum til skila til komandi kynslóða.
Guðfinna undirstrikar að ættfræðihugtakið sé miklu meira en þurr ættrakning, heldur spanni það flest allt sem okkur komi við. Maður eigi ekki að bíða með að spyrja, heldur fara strax af stað og gera ættarsöguna hluta af manns eigin sögu. Hún sýnir okkur hvernig glæða megi ættfræðina og ættarfróðleikinn lífi, gera hann spennandi og eftirsóknarverðan fyrir komandi kynslóðir. Að þekkja eigin sögu geri fólk víðsýnna og þroski það.

Guðfinna Ragnarsdóttir er ritstjóri Fréttabréfs Ættfræðifélagsins og fyrrverandi kennari við Menntaskólann í Reykjavík.

Fyrirlesturinn verður haldinn á Gömlu Borg í Grímsnesi, laugardaginn 15. mars kl. 16.00.

Allir velkomnir!