Tilbaka í Fyrri Upplitsviðburðir

„Upp ég vil á Skjaldbreið skreppa…“

Laugardaginn 16. apríl 2011, kl. 13.00

Hátt í níutíu manns tóku þátt í leiðangri Karlakórs Kjalnesinga á Skjaldbreið laugardaginn 16. apríl. Kórinn fagnar tuttugu ára starfsafmæli sínu á þessu ári og stendur af því tilefni fyrir tuttugu viðburðum á árinu, misjafnlega hefðbundnum. Safnast var saman við Skógarhóla kl. hálfellefu að morgni, þar sem nokkrir bílar voru skildir eftir og hluti hópsins stökk um borð í  fjallatrukk einn mikinn sem Arngrímur Hermannsson ók. Haldið var sem leið lá að vegamótum Kaldadals og Uxahryggjaleiðar og þaðan beint til austurs eftir línuvegi að rótum fjallsins að norðanverðu og þaðan á toppinn… eða næstum því.

Ferðin sóttist heldur seint, þar sem færi var heldur þungt og mikið hjakkað og dregið. Þegar aðeins var stutt eftir á leiðarenda voru flestir bílarnir skildir eftir og ákveðið að treysta á trukkinn, sem mjakaðist hægt en nokkuð ákveðið áfram nokkurn spotta. Þar kom þó að meira að segja hann komst ekki lengra – og þá var skollið á dimmt él og þótti því ekki hyggilegt að þrjóskast við að ná tindinum. Nokkrir komust þó þangað á vélsleðum og jeppum – og einn á skíðum. En skynsemin fékk að ráða og hópnum var snúið við. Tónleikarnir sem vera áttu í gígnum voru fluttir í skjól við fjallatrukkinn um einum kílómetra frá fyrirhuguðum tónleikastað – og höfðu margir á orði að það gengi bara betur næst, einhvern tíma skyldu þeir syngja í gígnum.

Í öruggu skjóli fjallarútunnar flutti Karlakór Kjalnesinga undir stjórn Páls Helgasonar öll ellefu erindin í ljóði Jónasar Hallgrímssonar, Fjallið Skjaldbreiður, og nokkur önnur lög við ljóð Jónasar, við rífandi undirtektir tónleikagesta.

Hinn hagmælti formaður kórsins, Guðmundur Guðlaugsson, kastaði fram þessari stöku:

Jarðfræðingurinn Jónas H
jafnan inní tjald skreið.
En eitt sinn þegar úti lá
orti´ann ljóð um Skjaldbreið.

Kórfélagar höfðu sem von var fylgst grannt með veðurspám dagana fyrir ferðina og varð Guðmundi formanni að orði eftir samanburð á norskri veðurspá og spá Veðurstofunnar:

Skjaldbreið kórinn ætlar á
engu þarf að kvíða.
Ég vitna í norska veðurspá:
„Þar verður logn og blíða.“

Annar kórfélagi, Sigþór U. Hallfreðsson, bætti einu erindi aftan við kvæðabálkinn sem Jónas orti fyrir 170 árum og hljóðar það svo:

Fjallið Skjaldbreiður 2011

Upp ég vil á Skjaldbreið skreppa
skaparans í fjalla heim.
Fótgangandi fer á jeppa.
fjörugum í karla sveim.
Fjalladrottning elds og ísa
opnar faðm sinn barmastór.
Dansa fjöll og dauðir rísa
dunar undir karlakór.

Allir komust heilu og höldnu heim eftir ævintýralegan dag og víst er að þessi dagur á eftir að lifa lengi í minningunni.

Að leiðarlokum rann þessi limra upp úr kórfélaganum  Jóni Pálssyni:

Þeir buðu uppá veðrið hið blíðasta
já birtu og akfærið þýðasta
en fastir í keldum
við hreinlega héldum
að kórinn nú syngi sitt síðasta

.

Upplit þakkar Karlakór Kjalnesinga fyrir samstarfið og óskar kórfélögum til hamingju með tuttugu ára starfsafmælið. Næst á afmælisdagskránni eru tónleikar á Esju laugardaginn 23. apríl, undir yfirskriftinni „Svífur yfir Esjunni“.

Myndirnar hér að neðan tók Edda Sigurðardóttir.

Fleiri myndir úr ferðinni má sjá á vef kórsins og á Facebook-síðu Upplits.

Smellið á myndirnar til þess að skoða þær stórar.

Úr Skjaldbreiðarferð 16. apríl 2011 Úr Skjaldbreiðarferð 16. apríl 2011 Úr Skjaldbreiðarferð 16. apríl 2011 Úr Skjaldbreiðarferð 16. apríl 2011 Úr Skjaldbreiðarferð 16. apríl 2011 Úr Skjaldbreiðarferð 16. apríl 2011 Úr Skjaldbreiðarferð 16. apríl 2011 Úr Skjaldbreiðarferð 16. apríl 2011