Tilbaka í Fréttir

Frjó umræða á málþingi

Um 30 manns mættu á málþing Upplits um samstarf og menningarstefnu í uppsveitunum sem fram fór á Hótel Heklu laugardaginn 29. janúar, undir yfirskriftinni „Skiptir menning máli?“ Sérstakur gestur málþingsins var Signý Ormarsdóttir, menningarfulltrúi Austurlands, sem sagði frá öflugu menningarlífi á Austurlandi, menningarmiðstöðvum og samstarfi. Erindi Signýjar kom eins og ferskur gustur að austan og mun án efa verða Uppliti gott veganesti til áframhaldandi góðra verka og enn frekari samræðu og samvinnu þvert á girðingar sveitarfélaga. Meðal þess sem Signý ræddi var nauðsyn aðgerðamiðaðrar stefnu í menningarmálum, ekki væri nóg að setja háleit og almennt orðuð markmið sem síðan væri erfitt að uppfylla, betra væri að setja raunhæf og mælanleg markmið.

Athyglisvert var að heyra af misjafnlega skýrt skilgreindum hlutverkum menningarmálanefnda í sveitarfélögunum fjórum í uppsveitunum sem kynntu sig á þinginu. Úr Skeiða- og Gnúpverjahreppi kom Daði Viðar Loftsson, fulltrúi í menningar-, æskulýðs-, velferðar- og jafnréttisnefnd, úr Hrunamannahreppi Halldóra Hjörleifsdóttir, formaður ferða- og menningarmálanefndar, frá Bláskógabyggð Skúli Sæland, formaður menningarmálanefndar, og í forföllum fulltrúa æskulýðs- og menningarmálanefndar Grímsnes- og Grafningshrepps sátu fyrir svörum þeir Gunnar Þorgeirsson oddviti og Hörður Óli Guðmundsson varaoddviti. Lýður Pálsson, forstöðumaður Byggðasafns Árnesinga, talaði fyrir hönd safnsins og auk ofantalinna tók Dorothee Lubecki, menningarfulltrúi Suðurlands, þátt í pallborðsumræðum.

Jákvæður vilji til samstarfs og upplýsingamiðlunar var eins og rauður þráður í máli allra þeirra sem tjáðu sig í umræðunum. Ljóst er að margt gott er nú þegar í gangi á sviði menningarmála um allar sveitir, en stundum skortir á að nágrannarnir frétti af því. Meðal hugmynda sem varpað var fram var að nágrannasveitarfélögin hefðu samráð um tímasetningu og kynningu á opnum dögum, þannig að í stað þess að vera í samkeppni um gesti og athygli yrðu viðburðirnir settir upp eins og einskonar rúntur um uppsveitirnar. Ekki endilega á sama tíma, en þó í samhengi. Almenn ánægja var með að nokkrir fulltrúar úr sveitarstjórnum á svæðinu mættu á málþingið. Umræðan, sem ekki verður öll endursögð hér, var frjó og jákvæð – og vonandi bara byrjunin á enn frekari samræðu á menningarsviðinu í uppsveitunum.

Á dagskrá aðalfundar Upplits, sem haldinn var í beinu framhaldi af málþinginu, voru venjuleg aðalfundarstörf. M.a. var stiklað á stóru yfir starfsemi síðasta árs og dagskrá nýhafins starfsárs kynnt, auk þess sem ársreikningur var samþykktur og gluggað í heildarkostnaðaráætlun. Ásborg Arnþórsdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn og í hennar stað var kjörin Kristveig Halldórsdóttir, sem áður hafði verið í varastjórn. Í hennar stað í varastjórn var kosin Sigurdís Edda Jóhannesdóttir. Stjórn Upplits er nú þannig skipuð: Ann-Helen Odberg, Eyþór Brynjólfsson, Kristveig Halldórsdóttir, Margrét Sveinbjörnsdóttir og Skúli Sæland. Í varastjórn eru Anna Kristjana Ásmundsdóttir og Sigurdís Edda Jóhannesdóttir. Skoðunarmenn reikninga eru áfram þeir Pétur Skarphéðinsson og Jóhannes Sigmundsson, og varaskoðunarmenn Esther Guðjónsdóttir og Anna Soffía Óskarsdóttir. Í fundarlok var svo opnaður nýr vefur Upplits.